Innlent

Noregi boðin aðild að sérleyfum á Drekasvæðinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Orkustofnun hefur boðið olíu- og orkumálaráðuneyti Noregs að verða fjórðungsaðili að leitar- og vinnsluleyfum á Drekasvæðinu sem fyrirhugað er að úthluta í næsta mánuði. Norsk stjórnvöld hafa þrjátíu daga til að ákveða hvort þau vilji tilnefna olíufélag til þátttöku.

Þetta er í samræmi við Jan Mayen-samkomlag Íslands og Noregs frá árinu 1981 sem kveður á um gagnkvæman 25 prósenta þátttökurétt í olíuvinnslu í lögsögu hvors annars á afmörkuðu samvinnusvæði á Jan Mayen-hryggnum. Þetta tiltekna svæði þykir reyndar afar spennandi en Íslandsmegin lögsögumarkanna er neðansjávarfjall kennt við Sigurð Fáfnisbana og það var einmitt þar sem staðfesting fékkst í fyrra um olíu í sýnum sem náðust af hafsbotni með fjarstýrðum kafbáti.

Þrjár umsóknir bárust Orkustofnun í aprílmánuði í vor í útboði á sérleyfum til olíuvinnslu og hefur Stöð 2 áður greint frá því að búist sé við að tvær þeirra verði samþykktar, frá Faroe Petroleum og Íslensku kolvetni, og frá Valiant Petroleum og Kolvetni. Þriðji umsækjandinn, Eykon, er, - án reynds samstarfsaðila, - ekki talinn standast kröfur útboðsins um fjárhagslegan styrk og tæknilega getu.

Ef fyrirhugað er að gefa út sérleyfi innan samvinnusvæðisins þarf að bjóða Norðmönnum þátttöku og staðfesti Orkustofnun við Stöð 2 í dag að slíkt boð hefði nú verið sent til olíu- og orkumálaráðuneytis Noregs. Norðmenn hafa rétt á allt að 25% aðild að sérleyfum og hafa þeir þrjátíu daga til að ákveða hvort þeir vilji nýta þann rétt.

Ákveði norsk stjórnvöld að ganga inn í sérleyfi þykir líklegast að þau tilnefni olíufélagið Petoro til þátttöku en það er að öllu leyti í eigu norska ríkisins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×