Fótbolti

Katrín skoraði annan leikinn í röð en liðið féll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Jónsdóttir.
Katrín Jónsdóttir. Mynd/Anton
Katrín Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, skoraði eitt marka Djurgården í 4-3 sigri á Piteå IF í lokaumferð sænsku kvennadeildarinnar í dag en það dugði ekki til að bjarga liðinu frá falli.

Djurgården átti tölfræðilega möguleika að komast upp fyrir Örebro en þurfti þá bæði að vinna upp þriggja stiga og sex marka forskot. Katrín og fyrirliðinn Guðbjörg Gunnarsdóttir spiluðu allan leikinn.

Katrín Jónsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í sænska boltanum um síðustu helgi og kom sínu liði í 3-1 í dag með marki í öðrum leiknum í röð. Hallbera Guðný Gísladóttir spilaði allan leikinn með Piteå.

Edda Garðarsdóttir og félagar hennar í Örebro unnu hinsvegar 3-0 sigur á botnliði AIK og tryggðu sér með því áframhaldandi sæti í deildinni. Edda spilaði allar 90 mínúturnar í leiknum.

Elísabet Gunnarsdóttir og stelpurnar hennar í Kristianstads töpuðu 1-3 á útivelli á móti Jitex og enduðu í 6. sæti deildarinnar. Margrét Lára Viðarsdóttir og Sif Atladóttir spiluðu allan leikinn en Katrín Ómarsdóttir var tekin útaf á 64. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×