Fótbolti

Þjálfari FCK: Það vantar upp á fagmennskuna hjá Sölva

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sölvi Geir Ottesen.
Sölvi Geir Ottesen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Landsliðsmiðvörðurinn Sölvi Geir Ottesen hefur ekki fengið mörg tækifæri hjá FC Kaupamannahöfn að undanförnu og það hefur mikið breyst síðan að hann tryggði liðinu sæti í Meistaradeildinni fyrir tveimur árum.

Sölvi Geir hefur ekki fengið eitt einasta tækifæri í dönsku úrvalsdeildinni síðan að varnarmistök hans kostuðu liðið sigur á móti OB í byrjun september. Þjálfarinn Ariel Jacobs vill frekar nota þá Ragnar Sigurðsson og Kris Stadsgaard í miðvarðarstöðunum.

„Það er ekkert endanlegt í fótbolta en undanfarnar vikur höfum við fundið rétta jafnvægið með því að spila með Kris Stadsgaard og Ragnar Sigurðsson. Ég geri mér grein fyrir því að Sölvi er svekktur og pirraður. Það er í lagi að vera svekktur en pirringur er ekki af hinu góða," sagði Ariel Jacobs við Ekstra Bladet.

„Ég hef saknað meiri fagmennsku frá Sölva. Þjálfari metur leikmenn út frá því hvernig þeir æfa, hvernig þeir spila og hvernig hugarfar þeirra er. Ef að það vantar upp á í einhverju af þessum þremur þáttum þá velur maður aðra leikmenn," sagði Jacobs.

Jacobs ákvað að gefa Ragnari hvíld í bikarleik í vikunni en í stað þess að gefa Sölva tækifæri þá spilaði hann með Michael Jakobsen í miðverðinum.

„Sölvi var líklega svekktur yfir því en það hefði Michael einnig verið ef Sölvi hefði spilað. Ég bað danska sambandið í haust um að fá að spila með fimmtán menn í leik til þess að allir yrði ánægðir en þeir sættu sig ekki við það," sagði Jacobs í gríni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×