Innlent

Höfðatorgshetjan: Ég get ekki horft upp á fólk slasa sig

Boði Logason skrifar
„Nei, satt best að segja átti ég ekki von á þessu þegar ég vaknaði í morgun - ég held að enginn hafi átt von á þessu," segir höfðatorgshetjan Albert Ómar Guðbrandsson, húsvörður á Höfðatorgi, sem hefur ásamtö öðrum staðið vaktina fyrir utan húsið í allan dag en þar hafa vindhviður farið allt upp í 35 metra á sekúndu.

„Ástandið er bara búið að vera mjög slæmt, eins og veðrið. Það er allt í lagi inni en fyrir utan er þetta slæmt. Menn halda áfram að berjast í vindinum, jafnvel þó þeir komist ekki neitt - og jafnvel þó það sé búið að vara fólk við en við Íslendingar erum bara svona. Ég get ekki horft upp á fólk slasa sig," segir hetjan Albert Ómar.

Að minnsta kosti tveir hafa slasast við bygginguna í dag. „Svo hafa einhverjir fengið skrámur. Við höfum reynt að grípa þetta lið og beina þeim réttar leiðir. Þetta er bara leiðindarástand - það er ekki laust við að maður sé titrandi," segir hann.

Og nú þegar dagurinn er á enda ætlar hann heim að hvíla sig. „Við erum búnir að gera viðeigandi ráðstafanir og fá öryggisverði til að vakta þetta. Maður verður einhverntímann að hvílast," segir Albert Ómar, hetjan á Höfðatorgi, að lokum.

Athugasemd ritstjórnar kl 18:20. 

Eftir að fréttin fór í loftið kom í ljós að Höfðatorgshetjurnar eru fleiri en ein. Húsvörðurinn Albert, starfsmaður Eyktar sem stóð fyrir utan í allan dag í kraftgalla og fleiri menn. Þeir aðstoðuðu fólk í sameiningu og nú hefur verið fenginn öryggisvörður í verkið.

Í myndbandinu hér að ofan má sjá Albert og Eyktarmanninn að störfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×