Innlent

"Sjálfhverfa kynslóðin“ hefur tapað milljörðum

Ungt fólk í Kringlunni.
Ungt fólk í Kringlunni.
Gríðarleg eignartilfærsla hefur orðið frá ungu fólki til gamals fólks á aðeins fimm árum. Þetta segir Karl Sigfússon verkfræðingur í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Hann ritar greinina í tilefni af skrifum Sighvats Björgvinssonar um sjálfhverfu kynslóðina, sem hann kallaði svo.

Karl segir í grein sinni að hrein eign 31-45 ára íslendinga hafi fallið úr 137 milljörðum niður í mínus 8 milljarða á árunum 2006 til 2011 eða sem samsvarar lækkun upp á 106%. Á sama tímabili hafi eignastaða fólks, sem er á aldrinum 61-75 ára, aukist um 34%. Hún hafi farið úr 512 milljörðum í 684 milljarða.

„Allt tal Sighvats um eignahrun gamla fólksins er því algjör rökleysa. Hið rétta er að hér hefur átt sér stað gríðarleg eignatilfærsla milli kynslóða, frá þeim yngri til þeirra eldri, með tilheyrandi eignabruna hjá yngri kynslóðunum. Ástæðuna er ekki hægt að rekja nema að litlu leyti til gengistryggðra lána eins og Sighvatur heldur fram, enda var aðeins lítill hluti landsmanna með slík lán. Réttara er að horfa til verðtryggðra fasteignalána sem meginástæðunnar fyrir eignatilfærslunni - lánafyrirkomulagi sem komið var í gagnið þegar ég var aðeins 4 ára gamall af samferðarmönnum Sighvats. Það væri nú langsótt að kenna mér og minni sjálfhverfu kynslóð um áhrifin af þessu meingallaða lánafyrirkomulagi," segir Karl.

Lesa má grein Karls hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×