Erlent

Segja O.J. Simpson hafa ráðið raðmorðingja til að myrða konu sína

Í nýjum heimildarþætti á sjónvarpsstöðinni Investigation Discovery er því haldið fram að leikarinn og ruðningshetjan O.J. Simpson hafi ráðið þekktan raðmorðingja til þess að myrða eiginkonu sína og ástmann hennar.

Simpson á að hafa greitt raðmorðingjanum 20.000 dollara fyrir morðin. Raðmorðinginn sem hér um ræðir heitir Glen Rogers og hefur hann játað að hafa myrt þau Nicole Simpson og Ronald Goldman að beiðni Simpson árið 1992.

Rogers bíður nú þess að vera tekinn af lífi fyrir eitt af morðum sínum í fangelsi í Kaliforníu. Vitað er að hann myrti fimm konur á árabilinu 1993 til 1995 eftir að hafa nauðgað þeim fyrst. Sjálfur segir Rogers að hann hafi myrt 70 manns.

Simpson var á sínum tíma sýknaður af ákæru hins opinbera fyrir morðin en réttarhöldin yfir honum vöktu heimsathygli. Morðin á þeim Nicole og Goldman eru enn opinberlega sögð vera óleyst. Hinsvegar var Simpson síðar dæmdur í einkamáli til að borga ættingjum eiginkonu sinnar um 4 milljarða kr. í skaðabætur.

Hvorki Simpson né lögfræðingur hans hafa tjáð sig um efni heimildarþáttarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×