Innlent

Hámarkslán verði 40 milljónir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sævar Jónsson og eiginkona hans fengu 100 milljónir til að kaupa hús.
Sævar Jónsson og eiginkona hans fengu 100 milljónir til að kaupa hús.
Stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins samþykkti á fundi í dag breytingar á lánareglum sjóðsins sem fela í sér að hámarkslán til sjóðfélaga verða framvegis 40 milljónir króna en undanfarin ár hefur ekki verið skilgreint hámark á sjóðfélagalánum að því tilskyldu að nægjanlegt veðrými og greiðslugeta væri fyrir hendi. Jafnframt var ákveðið að setja sérstakar reglur um meðferð lánsumsókna þegar aðilar sem tengjast sjóðnum eiga í hlut.

Tilefni þess að stjórn sjóðsins ákvað að herða lánareglur með þessum hætti er frétt DV undanfarna daga þar sem fram hefur komið að Sævar Jónsson, eigandi Leonard, og eiginkona hans fengu lán hjá sjóðnum samtals að upphæð um 100 milljónir króna.

Jafnframt hefur komið fram að starfsmaður sjóðsins er skyldur viðkomandi lántakendum. Kristján Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins, segir í yfirlýsingu að á fundi með stjórn sjóðsins hafi hann undirstrikað að viðkomandi starfsmaður hafi engin afskipti haft af afgreiðslu þessa máls á sínum tíma. Kristján segist hafa upplýst að umræddir lántakendur hafi verið sjóðfélagar þegar lánið var veitt.

„Ekki var óskað eftir sérstöku greiðslumati á þessum tíma heldur var kannað hvort viðkomandi væru á vanskilaskrá sem ekki reyndist vera. Fyrir láninu var tekinn 1. veðréttur í fasteign lántakenda sem samkvæmt nýju verðmati löggilts fasteignasala er metin á um 180 milljónir króna. Lánið hefur verið í skilum frá upphafi. Tekið skal fram að Sameinaði lífeyrissjóðurinn hefur ekki komið að öðrum lánveitingum sem tengjast viðkomandi sjóðfélögum eða fyrirtækjum þeirra," segir í yfirlýsingu Kristjáns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×