Enski boltinn

Annar brottrekstur Di Matteo á tuttugu mánuðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Di Matteo.
Roberto Di Matteo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Di Matteo var í morgun rekinn úr starfi knattspyrnustjóra Chelsea eftir dapurt gengi liðsins að undanförnu en það sem fyllti mælinn var 3-0 tap á móti Juventus í Meistaradeildinni í gær.

Roberto Di Matteo hélt starfinu í 262 daga eða lengur en þeir Andre Villas-Boas (256), Avram Grant (247) og Luiz Felipe Scolari (223).

Þetta er í annað skitpið á rúmum tuttugu mánuðum þar sem Di Matteo þarf að taka pokann sinn en hann var rekinn sem stjóri West Bromwich Albion í febrúar 2011.

Di Matteo stýrði WBA upp í ensku úrvalsdeildina vorið 2010 en var rekinn eftir 3-0 tap á móti Manchester City 5. febrúar 2011 en liðið var þá aðeins búið að vinna einn af síðustu tíu leikjum sínum.

Di Matteo tók tímabundið við Chelsea í mars 2012 en fékk fastráðningu í sumar efir að hafa stýrt liðinu til sigurs í bæði Meistaradeildinni og ensku bikarkeppninni.

Di Matteo var fyrsti stjórinn sem vinnur Meistaradeildina með Chelsea en hann vann 24 af 42 leikjum sínum sem stjóri Chelsea og sigurhlutfall hans með liðið var 57,14 prósent.

Síðustu átta leikir Chelsea:

23. október 1-2 tap fyrir Shakhtar Donetsk í Meistaradeildinni

28. október 2-3 tap fyrir Manchester United í deildinni

31. október 5-4 sigur á Manchester United í deildarbikarnum

3. nóvember 1-1 jafntefli við Swansea City í deildinni

7. nóvember 3-2 sigur á Shakhtar Donetsk í Meistaradeildinni

11. nóember 1-1 jafntefli við Liverpool

17. nóvember 1-2 tap fyrir West Brom í deildinni

20. nóvember 0-3 tap fyrir Juventus í Meistaradeildinni

Chelsea vann 9 af fyrstu 12 leikjum tímabilsins ef ekki er talið með tapið á móti Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×