Enski boltinn

Di Matteo rekinn frá Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Di Matteo í síðasta leiknum í gær.
Roberto Di Matteo í síðasta leiknum í gær. Mynd/AP
Roberto Di Matteo hefur verið rekinn frá Chelsea en síðasti leikur hans var 3-0 tap á móti Juventus í Meistaradeildinni í gær. Chelsea tilkynnti þetta á twitter-síðu sinni og þar segir að félagið muni fljótlega greina frá því hver tekur við liðinu og stjórnar því á móti Manchester City um næstu helgi.

Roberto Di Matteo tók við Chelsea af André Villas-Boas í byrjun mars en hann hafði áður verið aðstoðarmaður Portúgalans. Chelsea gerði flotta hluti undir hans stjórn síðustu mánuði tímabilsins og vann bæði Meistaradeildina og enska bikarinn.

Chelsea byrjaði líka þetta tímabil mjög vel en síðan fór allt að ganga á afturfótunum og liðið hefur aðeins náð að vinna 2 af síðustu 8 leikjum sínum í öllum keppnum.

Tapið á mótið Juve í gær setur liðið í slæma stöðu fyrir lokaumferðina í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og Chelsea gæti þar með orðið fyrsta meistaraliðið sem kemst ekki upp úr sínum riðli í titilvörninni.

Yfirlýsingin frá ChelseaKnattspyrnufélagið Chelsea lauk í morgun samstarfi sínu við knattspyrnustjórann Roberto Di Matteo

Frammistaða liðsins að undanförnu og úrslit hafa ekki staðið undir væntingum og eigandinn auk stjórnarinnar taldi að breytinga væri þörf til að stýra skipinu í rétta átt á þeim mikilvæga hluta tímabilsins sem nú fer í hönd.

Félagið á erfitt verkefni fyrir höndum að komast í útsláttarkeppni Meistaradeildar ásamt því að gera atlögu að Englandsmeistaratitlinum ásamt því að keppa í þremur öðrum bikarkeppnum. Markmið okkar er að vera eins samkeppnishæfir og mögulegt er og berjast um titla á öllum vígstöðvum.

Eigandinn og stjórnin vill þakka Roberto fyrir allt sem hann hefur gert í þágu félagsins frá því hann tók við stjórastöðunni í mars. Roberto stýrði liðinu til sögulegs sigurs í Meistaradeildinni og gerði liðið að enskum bikarmeistara í sjöunda skipti. Við munum aldrei gleyma hans mikla framlags til sögu félagsins og hann verður alltaf velkominn á Stamford Bridge.

Félagið mun fljótlega senda út fréttatilkynningu hvað varðar nýjan knattspyrnustjóra félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×