Enski boltinn

Benítez á leiðinni á Brúna?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Benitez.
Rafael Benitez. Mynd/AFP
Guardian segir frá því í morgun að forráðamenn Chelsea séu búnir að heyra hljóðið í Rafael Benítez til að athuga það hvort að hann sé tilbúinn að taka við liðinu af Roberto Di Matteo en Chelsea tapaði 0-3 á móti Juventus í gríðarlega mikilvægum leik í Meistaradeildinni í gær.

Rafael Benítez hefur verið atvinnulaus síðan að hann hætti með Internazionale í desember 2010 en hann stýrði áður Liverpool og Valencia við mjög góðan orðstír.

Benítez myndi líklega aðeins fá samning út þetta tímabil en það hefur lengi verið orðrómur um það að Roman Abramovich, eigandi félagsins, ætli sér að fá Pep Guardiola, fyrrum þjálfara Barcelona, til að taka við Chelsea í sumar.

Di Matteo tók sjálfur á sig sökina eftir tapið í gær en Chelsea hefur nú aðeins náð að vinna tvo af síðustu átta leikjum sínum í öllum keppnum. Liðið lék án eiginlegs framherja í gær því miðjumaðurinn Juan Mata var fremsti maður og 50 milljón punda maðurinn Fernando Torres kom ekki inn á fyrr en á 71. mínútu leiksins.

„Á þessari stundu þá erum við allir í þessu saman. Ég er hérna núna og ég tel að ég verði hér áfram í framtíðinni. Ég er líklega samt ekki maðurinn sem þið ættuð að spyrja til að fá vita um mína framtíð hjá liðinu. Hvað mig varðar þá held ég bara áfram að vinna mína vinnu. Ég ber samt ábyrgð á úrslitunum og frammistöðu liðsins. Þetta var neikvætt kvöld fyrir okkur en ég valdi það liðið sem ég var viss um að myndi vinna Juventus. Ég á því sökina," sagði Roberto Di Matteo efir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×