Sport

Brees brást og snertimarksmetið tók enda

Brees í leiknum í nótt.
Brees í leiknum í nótt.
Það varð nokkuð ljóst í nótt að New Orleans Saints mun ekki spila Super Bowl-leik á heimavelli sínum á þessu tímabili. Saints tapaði, 23-13, gegn Atlanta Falcons og vonir liðsins um sæti í úrslitakeppninni eru nánast orðnar að engu.

Hinn stórkostlegi leikstjórnandi liðsins, Drew Brees, brást aldrei þessu vant. Hann kastaði boltanum fimm sinnum í hendur andstæðinganna í leiknum og fann aldrei sinn takt.

Hann setti ótrúlegt met í vetur er hann kastaði bolta fyrir snertimarki í 48 leikjum í röð. Hann var kominn upp í 54 leiki fyrir leikinn í nótt en honum tókst ekki að kasta fyrir snertimarki að þessu sinni. Þetta met er eitt af þeim glæsilegri í deildinni.

Tímabilið hefur verið skrautlegt hjá Saints. Liðið mátti þola miklar refsingar fyrir tímabilið er upp komst að leikmenn liðsins hefðu sett fé til höfuðs andstæðinganna. Þeir sem náðu að meiða lykilmenn fengu greitt aukalega.

Þjálfari liðsins, Sean Payton, var dæmdur í ársleikbann og fleiri fengu bönn. Þetta hafði mikil áhrif á liðið sem tapaði fyrstu fjórum leikjum sínum í vetur.

Þrátt fyrir góða rispu eftir það voru þessir fjórir tapleikir einfaldlega of dýrkeyptir. Saints er búið að vinna fimm leiki og tapa sjö. Atlanta er aftur á móti á leið í úrslitakeppnina enda búið að vinna ellefu leiki og aðeins tapa einum.



NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×