Innlent

Ívar Ingimarsson á leið í framboð?

Ívar Ingimarsson og Hrefna Dagbjört Arnardóttir á heimili sínu á Egilsstöðum.
Ívar Ingimarsson og Hrefna Dagbjört Arnardóttir á heimili sínu á Egilsstöðum. Mynd/Friðrik Þór Halldórsson, Stöð 2.
Eftir atvinnumannsferil í ensku knattspyrnunni er Stöðfirðingurinn Ívar Ingimarsson fluttur heim til Austurlands og hefur sterkar skoðanir um það hvar tækifæri landsbyggðarinnar liggja og til hvaða aðgerða þurfi að grípa. Hann og eiginkona hans, Hrefna Dagbjört Arnardóttir frá Breiðdalsvík, eru viðmælendur Kristjáns Más Unnarssonar í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 að loknum fréttum kl. 18.55 í kvöld.

Þau eru þegar byrjuð að beita sér fyrir fjölgun atvinnutækifæra á Austfjörðum, og með ýmsum ráðum, sem sum hafa ekki farið hátt. Svo mikill er eldmóðurinn að tilefni þótti til að spyrja hvort þau væru á leið í framboð. Svörin birtast í þættinum í kvöld.

Kynni Ívars og Hrefnu hófust í tíunda bekk í Alþýðuskólanum á Eiðum. Fljótlega eftir stúdentspróf varð fótboltinn fullt starf hjá Ívari. Hann gerðist atvinnumaður í Englandi, lék lengst með Reading en einnig með liðum eins og Wolves og Ipswich.

Um síðustu áramót urðu tímamót í lífi þeirra þegar Ívar ákvað að leggja skóna á hilluna. Þau fluttu heim frá Englandi og settust að fyrir austan. Þau keyptu hús á Egilsstöðum en voru áður búin að eignast jörðina Óseyri í botni Stöðvarfjarðar þar sem þau leggja nú grunn að framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×