Viðskipti innlent

Pétur: Harpan verður aldrei rekin án taps

BBI skrifar
Pétur H. Blöndal
Pétur H. Blöndal Mynd/Stefán Karlsson
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur enga trú á að Harpan verði nokkurn tíma rekin án taps. Hann minnir á að rekstrarkostnaður sé ekki eini kostnaðurinn sem hefur fallið á ríkissjóð vegna hússins því um 25 milljarðar féllu á opinbera aðila vegna byggingar hússins.

Pétur segir að gegnum tíðina hafi gengið illa að reka sinfóníuhljómsveit og leikhús á landinu. Hann er ekki trúaður á að vel muni ganga að reka tónlistarhús.

„Ég held að ef fólki tekst að reisa hótel við hlið Hörpunnar og lokka hingað allra ríkustu ferðamenn heimsins sem vilja dvelja á fimm stjörnu hótelum og fara í flotta óperu geti fólk mögulega náð rekstrarkostnaði yfir núllið," segir Pétur. „En ég sé það ekki gerast. Fyrir mér er þetta draumsýn eins og margt annað sem menn eru að gera, eins og t.d. Vaðlaheiðargöngin og Háskólasjúkrahúsið. Og þessir draumar breytast yfirleitt bara í martröð fyrir skattgreiðendur."

Nú stefnir í að Harpan verði rekin með 407 milljóna króna halla árið 2012. „Þarna er náttúrlega bara verið að tala um eitt ár," segir Pétur og minnir bæði á að tap af rekstri önnur ár kostnaðinn af byggingu hússins.

Á facebook síðu sinni segir Pétur að „menn hefðu aldrei átt að byrja á þessu mont húsi og enn síður halda því áfram". Að lokum lýsir hann því yfir að hann hefði aldrei fundið fegurðina í „þessum glerkumbalda", en það skipti kannski ekki öllu máli.


Tengdar fréttir

Harpan rekin með 407 milljóna halla á árinu

Ákveðið hefur verið að tónlistarhúsið Harpa verði rekin af einu félagi í eigu ríkis og borgar. Þetta er ákveðið eftir að í ljós kom að rekstrarafkoman verður neikvæð um 407 milljónir króna á árinu 2012 miðað við óbreyttar forsendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×