Innlent

Flokkspólitísk rammaáætlun lifir ekki af ríkisstjórnina

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að rammaáætlun muni ekki lifa af þessa ríkisstjórn ef niðurstaðan verði flokkspólitísk. Forstjóri álversins í Straumsvík talar um pólitískan skollaleik.

Rammaáætlun, sem ætlað er að skapa varanlega sátt um hvar megi virkja og hvað eigi að friða, bar á góma á ráðstefnu sem Verkfræðingafélag Íslands stóð fyrir í dag, um framtíðarnýtingu orkuauðlinda á Íslandi, í tilefni af eitthundrað ára afmæli félagsins.

Dregist hefur vikum saman að áætlunin birtist á Alþingi vegna átaka innan stjórnarflokkanna og voru þátttakendur í pallborðsumræðum spurðir hvort ekki væri hætta á því að rammaáætlunin yrði marklaust plagg, þegar hún bærist loks til Alþingis, ef flokkun virkjanakosta yrði breytt af pólitíkusum, sem virtu að vettugi hið faglega mat.

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, sagði það frekar súrt í broti, eftir alla þessa vinnu, ef þetta lenti í einhverjum farvegi í lokin, sem gerði það að verkum að þetta plagg yrði ekki eins mikils virði eins og það stefndi í með faglegu vinnunni. Horfa yrði til miklu lengri tíma en svo að hægt yrði að láta pólitískan skollaleik ráða.

Forstjóri Landsvirkjunar sagði slæmt ef þetta yrði flokkspólitísk ákvörðun. Til þess að rammaáætlun virkaði hefði þurft að koma út úr þessu breið sátt og helst þvert á flokka, sem myndi lifa af ríkisstjórnir.

„Ef þetta verður mjög flokkspólitískt, og kannski stjórnarflokkapólitískt, þá er hætt við því að þetta verði bara ónýtt um leið og ný stjórn kemur til valda," sagði Hörður Arnarson.

 



 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×