Innlent

Gamlinginn verður kvikmyndaður

Sigurjón Sighvatsson hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn á metsölubókinni Gamlingjanum. Myndin er væntanleg í kvikmyndahús undir lok næsta árs.

Myndin er byggð á samnefndri bók sem hefur farið sigurför um heiminn. Þriðja útgáfa af kvikmyndahandritinu er þegar tilbúin en það er sænski leikstjórinn Felix Herngren sem það skrifar en hann mun einnig sitja í leikstjórastólnum. Sigurjón segir þekktan sænskan leikara líklegan til að taka að sér hlutverk hins heldri manns.

Myndin verður á sænsku en þar sem Sigurjón er kominn með alþjóðlega fjármögnunaraðila að verkinu er áætlunin að framleiða einnig enskumælandi mynd, en hún verður þó með allt öðru sniði. Sigurjón er að vanda með mörg járn í eldinum, þar á meðal mynd sem byggð er á bók Yrsu Sigurðardóttur, „Ég man þig".

Hvað sem leikaravalinu líður hefur íslenskur leikstjóri verið ráðinn og nafn hans verður tilkynnt í næstu viku. Tökur hefjast í september og fara þær líklegast fram á Vestfjörðum, þar sem sagan sjálf gerist. Tökur á gamlingjanum hefjast svo í Svíþjóð og í fleiri löndum í mánuðinum þar á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×