Innlent

Mikil aukning á hjólreiðum í Reykjavík

Hjólreiðar,.
Hjólreiðar,.
Mikil aukning hefur orðið á hjólreiðum í Reykjavík samkvæmt nýrri og viðamikilli ferðavenjukönnun sem gerð hefur verið fyrir höfuðborgarsvæðið. 3,8% aðspurðra fara allra ferða sinna á reiðhjóli, en aðeins 0,8 % svöruðu á þennan veg árið 2002 þegar sambærileg könnun var gerð. Talan hækkar í 4,6% ef aðeins svör Reykvíkinga eru skoðuð. Flestar ferðir voru farnar á reiðhjóli í Miðborginni, Vesturbæ, Laugardal og Árbæ eða 6-7%. 61% aðspurðra segjast hjóla allt árið um kring eða hluta úr ári, en 39% aldrei.

Ýmsar ástæður skýra þessa breytingu. Nefna má fjölgun reiðhjólastíga í borginni og bættar aðstæður fyrir hjólreiðar, hátt eldsneytisverð, áhyggjur fólks af gróðurhúsaáhrifum bílasamgangna og áhuga á breyttum borgarbrag, vistvænum samgöngum og heilsusamlegu líferni.

Reykjavíkurborg hefur unnið jafnt og þétt að því að fjölga göngu- og hjólastígum um borgina. Árið 1980 voru göngu- og hjólastígar með bundnu slitlagi 269 km, árið 2002 650 km og 768 km í fyrra.

Það hefur því orðið bylting í lagningu göngu- og hjólreiðastíga sem gera íbúum og gestum kleift að ferðast hjólandi eða gangandi um borgina á öruggan og vistvænan máta. Víða eru göngubrýr eða undirgöng undir umferðaræðar og stígar eru lagðir um vinsælar útivistarperlur eins og Elliðaárdalinn og Ægissíðu.

Göngu- og hjólreiðastígar hafa einnig verið aðskildir til að greiða fyrir umferð gangandi og hjólandi vegfarenda, m.a. í Fossvogi og við Ægisíðu. Nú er verið að vinna að mikilvægum tengingum hjólastíga, t.d. með brúm yfir Elliðaárósa sem munu bæta og stytta hjóla- og gönguleiðir.

Könnunin var unnin af Capacent-Gallup fyrir öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðina og fór gagnaöflun fram frá 26. október til 6. desember 2011.Í úrtaki voru 10.140 og var svarhlutfall tæplega 35%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×