Innlent

Hefur áhyggjur af gerð rammaáætlunar

Orkufyrirtækin eru ósátt við hversu langan tíma það hefur tekið að klára rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda og óttast að málið dagi uppi á Alþingi.

Ríkisstjórnin hefur unnið að gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúruauðlinda um nokkurt skeið. Þrátt fyrir að fyrstu drög hafi verið kynnt síðasta haust þá hefur þingsályktunartillaga um málið enn ekki verið lög fram á Alþingi. Orkufyrirtækin bíða óþreyjufull eftir þessari áætlun þar sem þar mun koma fram hvaða svæði má virkja á næstu árum. Þar verður til að mynda mörkuð stefna um það hvort að virkja megi neðri hluta Þjórsár eða ekki. Á aðalfundi sínum í dag lýstu orku- og veitufyrirtæki vonbrigðum með það hversu langan tíma það hefur tekið stjórnvöld að klára rammaáætlunina.

„Á meðan að þetta er í vinnslu þá halda menn að sér höndum og þær rannsóknir sem að eru nauðsynlegar til undirbúnings þær tefjast og það eru ekki gefin út rannsóknarleyfi sem þýðir það að fyrirtækin bíða í von og óvon," sagði Tryggvi Þór Haraldsson.

Tryggvi segir að svo virðist sem að þeim faglegu forsendum sem lagt var af stað með í upphafi vinnunnar hafi verið ýtt til hliðar og málið snúist nú um eitthvað annað.

„Það virðist snúast um pólitík," sagði Tryggvi.

Tryggvi hefur áhyggjur af því að miklar tafir á gerð rammaáætlunarinnar leiði það af sér að ekkert verði af gerð hennar.

„Ég óttast að þetta muni bara daga uppi í þinginu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×