Innlent

Ungir framsóknarmenn mótmæla hækkun bílastæðagjalda

Stjórn félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík mótmælir öllum hugmyndum um hækkun bílastæðagjalda í miðborg Reykjavíkur.

Til stendur að hækka stöðumælagjaldið í miðborg Reykjavíkur og lengja gjaldskyldan tíma. Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti í gær að beina þessum tillögum til borgarráðs.

Nái tillögurnar fram að ganga hækkar klukkutíma gjald fyrir bílastæði á götum úr 150 krónum í 250 krónur. Ráðið leggur til að gjald í bílastæðahúsum verði óbreytt en þar kostar fyrsti klukkutíminn 80 kr. en næstu tímar 50 kr. Staðfesta þarf tillögur ráðsins í borgarráði en áformað er að breytt gjaldtaka hefjist 15. apríl næstkomandi.

Að mati Ungra framsóknarmanna í Reykjavík mun þessi aðgerð fæla fólk frá hverfinu og veikja samkeppnishæfni verslana í miðborgarinni. Ungir framsóknarmenn í Reykjavík minna á það í ályktun sinni að stöðumælarnir eru nú þegar að þjóna tilgangi sínum sem er að rýma stæðin reglulega og tökum við því undir með verslunareigendum að hækkunin sé fullkomlega óþörf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×