Körfubolti

Kobe Bryant seldi flestar treyjur utan Bandaríkjanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Mynd/AP
Kobe Bryant er stærsta alþjóðlega NBA-stjarnan ef marka má sölu keppnistreyja utan Bandaríkjanna. NBA-deildin gaf út í dag út lista yfir þá leikmenn sem seldu flestar treyjur utan Bandaríkjanna á þessu tímabili en þetta er í fyrsta sinn sem slíkur listi er birtur.

Lakers-treyjan númer 24 er söluhæsta NBA-treyjan í Kína, Evrópu og Mið og Suður-Ameríku en þetta er sjötta tímabilið í röð sem Kobe Bryant selur flestar treyjur í Kína. NBA notar sölutölur frá Adidas-verslunum út um allan heim en NBA-deildin er í samstarfi við Adidas-umboðið.

Derrick Rose, leikstjórnandi Chicago Bulls, seldi aftur á móti flestar treyjur innan Bandaríkjanna en Rose var kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar í fyrra. Rose varð fyrir því óláni að slíta krossband í fyrsta leik í úrslitakeppninni.

Rose var í öðru sæti yfir seldar treyjur utan Bandaríkjanna en í næstu sætum voru síðan þeir LeBron James hjá Miami Heat, Kevin Garnett hjá Boston Celtics og Dwight Howard hjá Orlando Magic. Spánverjinn Pau Gasol var í 11. sæti og efstur meðal alþjóðlegra leikmanna en landi hans Ricky Rubio hjá Minnesota Timberwolves endaði í 15. sæti yfir flestar seldar NBA-treyjur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×