Innlent

Boðar sölu á Landsbankahlut í ár

BAnkasala Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lét þau orð falla við Reuters að til stæði að hefja sölu á hluta ríkisins í Landsbankanum í ár. Fréttablaðið/Anton
BAnkasala Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lét þau orð falla við Reuters að til stæði að hefja sölu á hluta ríkisins í Landsbankanum í ár. Fréttablaðið/Anton
Til stendur að hefja sölu á hlut ríkisins að því er Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í viðtali við fréttastofuna Reuters. Salan er ekki að öllu í samræmi við framtíðarstefnu Bankasýslu ríkisins frá í mars síðastliðnum, þar sem segir að stofnunin geri ekki ráð fyrir því að leggja til að sala eignarhluta í Arion banka og Landsbankanum geti hafist fyrr en á næsta ári.

Bankasýslan heyrir undir Oddnýju Harðardóttur fjármálaráðherra. Gunnar Tryggvason, aðstoðarmaður Oddnýjar, sagði í samtali við Fréttablaðið að ráðherra hafi „þá yfirlýstu stefnu að fylgja ráðum bankasýslunnar í þessu máli".

Ríkið á sem stendur 81,3 prósenta hlut í Landsbankanum, en í viðtalinu við Reuters segir Jóhanna að til standi að selja hluta af eign ríkisins í bankanum, en stefnt sé að því að halda eftir um 66 prósenta hlut. Jóhanna segir jafnframt að stefnt sé að því að selja hluti ríkisins í hinum bönkunum ef rétt verð fáist fyrir þá.

Ríkið á 13 prósenta hlut í Arion banka og 5 prósent í Íslandsbanka auk misstórra hluta í fimm sparisjóðum víða um land.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×