Fótbolti

Jóhann Berg: AZ Alkmaar er litla liðið í einvíginu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóhann Berg í baráttunni í fyrri leik liðanna.
Jóhann Berg í baráttunni í fyrri leik liðanna. Nordic Photos / AFP
Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður AZ Alkmaar, segir lið sitt minni spámenn í viðureign sinni gegn Valencia í fjórðungsúrslitum Evrópudeildarinnar.

Jóhann Berg er í viðtali á heimasíðu Evrópska knattspyrnusambandsins fyrir leikinn. Alkmaar vann 2-1 sigur í fyrri viðureigninni í Hollandi sem var fyrsta tap Valencia í Evrópukeppni gegn hollenskum andstæðingi.

„Við vitum 100 prósent hvernig þeir spila eftir að hafa mætt þeim um daginn," segir Jóhann sem telur líklegt að einhverjar smávægilegar breytingar gæti þurft að gera á leikskipulagi liðsins í síðari leiknum sem fram fer í kvöld.

„Ég er ekki viss um að leikstíll okkar verði mikið breyttur en við verðum líkast til þéttari en venjulega," sagði landsliðsmaðurinn.

Jóhann Berg segir leikmenn Valencia augljóslega frábæra knattspyrnumenn.

„Roberto Soldado er auðvitað frábær leikmaður og fékk fín færi í fyrri leiknum en tókst sem betur fer ekki að skora," sagði Jóhann Berg sem hlakkar til að spila á hinum glæsilega Mestalla-leikvangi í Valencia.

„Við erum klárlega litla liðið í þessari viðureign. Við reynum að vera afslappaðir í leiknum, spila okkar knattspyrnu og komast í undanúrslit."

Leikur Valencia og AZ Alkmaar er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4 í kvöld og hefst klukkan 19.05.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×