Innlent

"Sjálfstæðisflokkurinn má ekki verða teboðshreyfing Íslands"

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn má ekki einangrast yst á hægri vængnum og verða að teboðshreyfingu Íslands segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og fyrrverandi varaformaður flokksins. Þá er hún ósátt við að Ragnheiður Elín Árnadóttir hafi verið sett af sem þingflokksformaður.

Þorgerður Katrín er gestur Magnúsar Halldórssonar í nýjasta þætti Klinksins, spjallþáttar um viðskipti- og efnahagsmál á viðskiptavef Vísis.

Þorgerður segir að Sjálfstæðisflokkurinn verði að móta sér trúverðuga efnahagsstefnu fyrir kosningar, þar sem peningastefnan, og gjaldmiðlamálin þar með, séu undir. Þá segir hún að flokkurinn geti ekki markað sér stöðu yst úti á hægri vængnum, þar sem meginþorri flokksmanna og raunar landsmanna allra, sé staðsettur á miðjunni á hinu pólitíska litrófi.

„Síðan má það ekki gerast að einhverjir einstaklingar innan Sjálfstæðisflokksins telji það vera sitt helsta verkefni, ásamt einhverjum framsóknarmönnum, að skapa hér einhverja teboðshreyfingu á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn má ekki verða teboðshreyfing Íslands. Hans mesti styrkleiki í gegnum tíðina hefur verið þessi víða skírskotun til landsmanna," segir Þorgerður.

Þorgerður segist vera bjartsýn á að Sjálfstæðisflokkurinn nái að stilla saman strengi fyrir kosningar næsta vor og verði í næstu ríkisstjórn. Mikilvægt sé að konur verði í framvarðasveit flokksins, ekki síst í ljósi þess hversu margar frambærilegar konur séu innan raða Sjálfstæðisflokksins. Hún segist ósátt við að Ragnheiður Elín Árnadóttir hafi verið sett af sem þingflokksformaður á dögunum, en tekur fram að það sé alls ekki vegna óánægju með Illuga Gunnarsson, sem tók við af henni.

„Ragnheiður Elín hefur staðið sig með eindæmum vel sem þingflokksformaður og hún leiðir eitt öflugasta kjördæmi okkar sjálfstæðismanna þar sem fylgið hefur vaxið eiginlega allt kjörtímabilið," segir Þorgerður. Sjá má viðtalið í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×