Sport

Sharapova í úrslit og efsta sæti heimslistans

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Maria Sharapova fagnar sigri í dag.
Maria Sharapova fagnar sigri í dag. Nordic Photos / Getty Images
Maria Sharapova tryggði sér í dag sæti í úrslitum Opna franska meistaramótsins í tennis með því að bera sigur úr býtum gegn Petru Kvitovu í undanúrslitum í dag.

Með sigrinum tryggði Sharapova að hún verði í efsta sæti heimslistans þegar að nýr listi verður gefinn út á mánudaginn. Hún komst fyrst í efsta sæti heimslistans árið 2005 og endurheimtir sætið nú.

Sharapova hafði betur í tveimur settum, 6-3 og 6-3, og komst þar með í úrslit á Opna franska í fyrsta sinn frá upphafi. Þetta var í þriðja sinn sem hún komst í undanúrslit en mótið er það eina af stórmótunum fjórum sem hún á eftir að vinna.

Sharapova mætir Söru Errani frá Ítalíu í úrslitum en sú síðarnefnda kom mjög á óvart með því að hafa betur gegn Samönthu Stosur frá Ástralíu í hinni undanúrslitaviðureigninni, 7-5, 1-6 og 6-3. Errani hefur aldrei áður komist í úrslit stórmóts en hún er í 21. sæti heimslistans.

Sharapova þykir mun sigurstranglegri aðilinn í úrslitunum, sem fara fram á laugardaginn, en hún hefur spilað gríðarlega vel á leirnum undanfarnar vikur og lenti ekki í teljandi vandræðum með Kvitovu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×