Skoðun

Óvissuferð heldur áfram

Skúli Magnússon skrifar
Sú niðurstaða í nýgenginni þjóðaratkvæðagreiðslu að 2/3 þeirra, sem nýttu atkvæðisrétt sinn, styðji tillögur Stjórnlagaráðs getur vart komið á óvart. Þótt deilt hafi verið um hvernig standa eigi að breytingum á stjórnarskrá, svo og hversu róttækar þessar breytingar eigi að vera, liggur fyrir að í samfélaginu er breið samstaða um breytingar, t.d. að því er snertir auðlindamál, þjóðaratkvæðagreiðslur og meðferð stjórnarskrárbreytinga.

Því hefur verið haldið fram, m.a. af mér á síðum þessa blaðs, að í stað hinnar róttæku nálgunar Stjórnlagaráðs eigi að láta gildandi stjórnarskrá njóta vafans og gera á henni yfirvegaðar og hófsamar breytingar um ákveðin atriði (sjá t.d. slíka tillögu á stjornskipun.is).

Með atkvæðagreiðslunni var auðvitað með engum hætti leitast við að gera upp á milli þessara leiða. Þess í stað mátti skilja kjarnaspurningu atkvæðagreiðslunnar á þá leið að „nei" þýddi í raun stuðning við óbreytta stjórnskipun án vilja til nokkurra breytinga. Þess í stað var unnt að segja „já" og jafnframt velja breytingarkosti ef kjósandinn var ekki fyllilega sannfærður um jáyrði sitt við fyrstu spurningu.

Hver og einn verður að meta hversu lýðræðisleg atkvæðagreiðsla sem þessi er. Það er hins vegar ljóst að töluvert hlaut að þurfa koma til svo að fólk hafnaði alfarið tillögum Stjórnlagaráðs, væri það á annað borð fylgjandi breytingum á gildandi stjórnarskrá. Í þessu ljósi er það umhugsunarefni að 1/3 hluti kjósenda skuli þrátt fyrir allt hafa sagt „nei" og þannig lýst því yfir að óskynsamlegt sé að halda áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar á forsendum núverandi ferlis.

Hér verður ekki lagður dómur á það hvort stuðningur 2/3 hluta þeirra sem mættu á kjörstað feli í sér afdráttarlausan stuðning þjóðarinnar og fullnægjandi lýðræðislegt umboð til að kollvarpa núgildandi stjórnskipun.

Það er hins vegar vonandi að áhyggjur þeirra sem gagnrýnt hafa frumvarp Stjórnlagaráðs reynist áhyggjulausar og hin stjórnskipulega óvissuferð, sem hófst árið 2010 og nú heldur fyrirsjáanlega áfram, jafnvel með lögfestingu nýrrar stjórnarskrár árið 2013, eigi sér þrátt fyrir allt farsælar lyktir.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×