Veiði

Veiðitölur LV: Dapurlegar lokatölur að tínast inn

Svavar Hávarðsson skrifar
Einn af ljósu punktum sumarsins er Hofsá í Vopnafirði sem þegar hefur skilað betri veiði en í fyrra. Róbert Haraldsson er hér með 101 sentímetra stórlax sem hann veiddi nýlega í Hofsá.
Einn af ljósu punktum sumarsins er Hofsá í Vopnafirði sem þegar hefur skilað betri veiði en í fyrra. Róbert Haraldsson er hér með 101 sentímetra stórlax sem hann veiddi nýlega í Hofsá.
Lokatölurnar í laxveiðiánum detta inn þessa dagana og undirstrikar það sem allir áhugamenn um stangveiði vissu fyrir allnokkru síðan; margar bestu árnar eru ekki hálfdrættingar á við veiðina í fyrra og lægstu veiðitölur í langan tíma staðreynd.

Toppárnar fimm mega þó ágætlega við una þegar heildarveiðin er höfð í huga. Ytri-Rangá er toppáin og nálgast hratt fjögur þúsund laxa. Þar höfðu í gær veiðst 3.887 laxar en Eystri-Rangá situr í öðru sætinu sem fyrr eftir 80 laxa viku með 2.690. Miðfjarðará hefur gefið 1.545 laxa í þriðja sætinu og ágætlega kroppaðist upp síðustu daga. Selá í Vopnafirði hefur gefið 1.444 laxa og Hofsá í Vopnafirði er komin yfir lokatölu sumarsins 2011. Þar hafa veiðst 962 laxar samanborið við 956 í fyrra. Allt útlit er fyrir að Hofsá skili fjögurra stafa tölu.

Veiði er lokið í Haffjarðará. Sumarið er með ágætum og lokatalan er 1.146 laxar. Enn verður veitt í Langá á Mýrum í nokkra daga en þar hafa veiðst 1.010, sem varla verður kvartað yfir þegar árnar í næstu sætum eru hafðar í huga og lokatölur liggja fyrir.

Norðurá
endaði í 953 löxum samanborið við 2.134 laxa sumarið 2011. Blanda endaði í 832 löxum en endaði í 2.032 í fyrra. Ekki þarf að fjölyrða um að þetta er minnsta veiði í Norðurá frá 1974 að tveimur árum undanskildum; 1984 og 1989. Blanda aftur á móti hefur oft skilað minni veiði síðustu áratugina, til dæmis 2002 og 2003. Hafa verður í huga að áin fór á yfirfall snemma og því hefur veiðin frá 8. ágúst verið nánast engin eða tólf laxar. Þá liggja lokatölur fyrir úr Þverá/Kjarrá: 738 miðað við 1.825 í fyrrasumar.

Flestir veiðimenn myndu vilja standa á bökkum Stóru-Laxár í Hreppum þessa dagana. Frábær veiði er bæði á svæði 1&2 og á svæði 3. Stóra hefur skilað 450 löxum nú þegar og 250 löxum síðustu fjórar vikurnar. Ekki ætti að koma á óvart þó heildarveiðin færi langleiðina í 600 fiska ef þeir septemberdagar sem eftir eru skila því sem veiðimenn vænta.

Laxá í Aðaldal
er föst í sömu sporum og í fyrri viku. Þar komu á land fjórir laxar þessa vikuna og heildarveiðin er 426 laxar.

Allt annað er að lesa tölur úr Breiðdalsá núna en um mánaðarmótin; komnir 422 en þeir voru um 250 í lok ágúst. Þar veiðast reyndar nær eingöngu tveggja ára stórlaxar, eins og veiðibók Strengja ber glöggt vitni um.

Ekki þarf að tyggja frekar um lágar tölur úr ám eins og Vatnsdalsá, Víðidalsá og Laxá á Ásum. Áhugasamir geta nálgast heildarlista Landssambandsins hér á heimasíðunni angling.is.

svavar@frettabladid.is






×