Innlent

Aðgengi að kössunum verði takmarkað

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir brýnt að samræma það regluverk sem gildir um spilakassa og happdrætti. Einnig vill hann láta auka eftirlit gífurlega og takmarka aðgengi að spilakössum. Þá vill hann grípa til úrræða til að sporna gegn fjárhættuspilum á netinu.

„Allt þetta og fleira verður tekið til skoðunar," segir Ögmundur. „Það var gott að heyra hve alvarlega menn taka þessari umræðu."

Innanríkisráðuneytið er nú að láta skoða hvaða lagabreytinga er þörf til þess að sporna við þeim vaxandi vanda sem spilafíkn er hér á landi.

„Auk þess hef ég kallað til sérstakan starfsmann til að kortleggja þetta og undirbúa stefnumótun sem ég ætla að leggja fram með haustinu," segir Ögmundur. „Í samræmi við það verða breytingar á lögum og reglugerðum og starfsumhverfi þessara spilakassa og fjárhættuspilum almennt."

Að hans mati er ágengasti aðilinn á markaðnum fjárhættuspil á netinu. „Í gegn um þau renna gríðarlegir fjármunir út úr landi í verðmætum gjaldeyri, en það sem verra er að þetta eyðileggur verðmæt líf fjölskyldna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×