Körfubolti

Nýr kani og Haukakonur léku sér að verðandi deildarmeisturum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jence Ann Rhoads
Jence Ann Rhoads Mynd/Hag
Tierny Jenkins átti frábæra innkomu í lið Hauka þegar hún lék sinn fyrsta leik með Haukum í kvöld. Jenkins var með 24 stig og 17 fráköst og 8 stoðsendingar og Haukar unnu öruggan 16 stiga sigur á verðandi deildarmeisturum Keflavíkur, 84-68, en Keflavík hefði tryggt sér sigur í deildinni með því að vinna þennan leik. Haukaliðið gerði út um leikinn með frábærum þriðja leikhluta sem liðið vann 36-19.

Jence Ann Rhoads (22 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar) og Íris Sverrisdóttir (21 stig) áttu líka báðar mjög góðan dag í liði Hauka en Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 22 stig fyrir Keflavík sem lék í kvöld án fyrirliðans Birnu valgarðsdóttur.

Keflavíkurstúlkur tóku frumkvæðið í upphafi leiks, komust í 4-1, 7-3 og 15-8 og það munaði fimm stigum á liðunum eftir fyrsta leikhlutann, 17-12 eftir að Haukastúlkur skoruðu síðustu körfu leikhlutans.

Haukaliðið skoraði síðan sjö fyrstu stig annars leikhlutans og komst í 19-17. Keflavíkurkonur voru fljótar að taka frumkvæðið á nýjan leik og náði fljótlega sex stiga forskoti. keflavík var síðan 36-32 yfir í hálfleik.

Jaleesa Butler og Pálína Gunnlaugsdóttir skoruðu báðar 11 stig fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum en Tierny Jenkins var með 12 stig og 13 fráköst hjá Haukum.

Haukaliðið skoraði ellefu fyrstu stig seinni hálfleiksins og var komið í 43-36 eftir aðeins tvær og hálfa mínútu af þriðja leikhlutanum. Haukaliðið skoraði 20 af fyrstu 23 stigum leikhlutans og leiddi að lokum með þrettán stigum, 68-55, fyrir lokaleikhlutann.

Haukakonur gáfu ekkert eftir í lokaleikhlutanum og unnu að lokum glæsilegan sextán stiga sigur, 84-68.



Haukar-Keflavík 84-68 (12-17, 20-19, 36-19, 16-13)

Haukar: Tierny Jenkins 24/17 fráköst/7 stoðsendingar/7 stolnir/3 varin skot, Jence Ann Rhoads 22/7 fráköst/8 stoðsendingar, Íris Sverrisdóttir 21, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 5, María Lind Sigurðardóttir 4, Gunnhildur Gunnarsdóttir 4, Guðrún Ósk Ámundardóttir 4/5 fráköst.

Keflavík: Pálína Gunnlaugsdóttir 22/4 fráköst, Jaleesa Butler 13/9 fráköst/6 varin skot, Eboni Monique Mangum 12/7 stoðsendingar, Hrund Jóhannsdóttir 10/8 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 7/7 fráköst, Helga Hallgrímsdóttir 4/5 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×