Innlent

Rukkað í öll bílastæði við HÍ og Landspítala

hjálmar sveinsson
hjálmar sveinsson
Bílanotkun nemenda Háskóla Íslands (HÍ) og starfsfólks Landspítalans þarf að dragast saman sem mótvægisaðgerð við aukinni umferð við nýjan Landspítala. Gert er ráð fyrir gjaldtöku við öll bílastæði í háskólanum, við spítalann og á milli gömlu og nýju Hringbrautar. Þetta segir Hjálmar Sveinsson, varaformaður skipulagsráðs Reykjavíkurbogar.

„Við höfum átt í samræðum við þessa aðila, höfum sett þeim ströng skilyrði og teljum engan vafa á að þetta muni takast,“ segir Hjálmar. Hann segir forsvarsmenn háskólans ekki hafa tekið illa í þessar hugmyndir.

Fréttablaðið greindi í gær frá athugasemdum íbúasamtaka vegna aukinnar umferðar við fyrirhugaðan spítala. Hjálmar segist skilja þær áhyggjur, en hann sé sannfærður um að það takist að stjórna umferð. Miklabrautin beri aðeins ákveðið mikla umferð og hún geti ekki orðið mikið meiri en í dag.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir brýna þörf á að byggja við Landspítalann við Hringbraut. Sú tillaga sem liggi fyrir sé hins vegar fráleit, enda allt of mikið byggingarmagn. „Þetta er rétt staðsetning en röng tillaga.“

Þá sé ekki lengur um viðbyggingu við byggingar að ræða, heldur alveg nýjan spítala.

Hjálmar segir að til lengri tíma litið sé rétt að benda á uppbyggingu í Vatnsmýrinni, en aðeins séu rúm þrjú ár í að hluti flugvallarins fari.

„Það stendur ekkert til annað en það að í endurskoðuðu Aðalskipulagi verði staðið við tímasetningar og norður/suðurbrautin fari árið 2016. Það eru rétt rúm þrjú ár í það. Þetta er sterk yfirlýsing um að við lítum svo á að flugvöllurinn sé að fara í áföngum sem geri það kleift að að byggja í Vatnsmýrinni á næstu tuttugu árum. Það mun minnka umferðarþörf og gefa fleirum kost á að búa miðsvæðis, til dæmis nálægt nýjum spítala.“

Skipulagsráð hefur samþykkt að framlengja frest til athugasemda við tillöguna til 20. september.- kóp / sjá síðu 6




Fleiri fréttir

Sjá meira


×