Innlent

Lóan að kveða burt snjóinn - mikill hiti um helgina

Lóan sem sást í Hvalfjarðarsveit í gær er komin til að kveða burt snjóinn ef marka má veðurspá næstu daga. Hitinn gæti farið yfir fimmtán gráður á Norður- og Austurlandi um helgina.



Heiðlóa sást á vappi við bæinn Ytri Hólm í Hvalfjarðarsveit, skammt sunnan við Akranes og náði ljósmyndari frá Skessuhorni héraðsfréttablaði Vesturlands vorboðanum ljúfa á mynd sem virðist standa undir nafni því Óli Þór Árnason veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands spáir nokkrum hlýindum um helgina.



„Það má búast við því að hitastigið gæti náð svona 8 til 10 gráðum víða hérna sunnan og vestantil. Á Norður- og Austurlandi gæti það farið í 8 til 12 stig," segir Óli Þór.



Hann gerir ráð fyrir þurru og björtu veðri á norður- og austurlandi en segir að íbúar á sunnan og vestanverðu landinu verði að sætta sig við nokkra vætukafla um helgina. Útlit er fyrir að það kólni aftur á mánudag en þar sem Lóan er nú komin til landsins er um að gera að vera bjartsýnn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×