Erlent

Trylltur heimur fegurðarsamkeppna barna vegur óhug

Nýjasti þátturinn í bandarísku sjónvarpsþáttaröðinni Toddlers & Tiaras hefur vakið hörð viðbrögð víðsvegar um heim. Í þættinum klæðir móðir dóttur sína upp sem kyntáknið Daisy Duke og gefur henni orkudrykk í ómerktri flösku.

Raunveruleikaþátturinn Toddlers & Tiaras er sýndur á sjónvarpsstöðinni TLC. Efnistök þáttarins hafa áður vakið hörð viðbrögð en hann fjallar um fegurðarsamkeppnir barna. Mæður stúlknanna gegna stóru hlutverki í þáttunum en þær klæða börn sín í vægast sagt vafasama búninga fyrir keppnirnar.

Þátturinn var sýndur á miðvikudaginn síðastliðinn. Í honum segir frá Alönu en hún er sex ára gömul. Hún hefur tekið þátt í fjölda fegurðarsamkeppna fyrir tilstuðlan móður sinnar.

Á einum tímapunkti segir June, móðir Alönu, að hún hafi reynt allt til að hressa dóttur sína við en ekkert hafi gengið. Á endanum hafi hún ákveðið að blanda sinn eigin orkudrykk sem dóttir hennar drekkur úr ómerktri flösku.

Heimili mæðgnanna hefur einnig vakið athygli. June kallar sig drottningu afsláttarmiðanna og hefur hún hamstrað nytjavörur sem nú þekja heimili þeirra. Fjárhagslegar áherslur June virðast hafa fyllt Alönu andagift en hana dreymir um að safna afsláttarmiðum rétt eins og móðir sín.

Alana bætir síðan við: „A dolla' makes me holla, honey boo-boo!"

Margir hafa mótmælt þættinum og segja að hann geti haft afar slæm áhrif á börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×