Viðskipti innlent

Greiða ekki krónu fyrir kauprétt - fá hundruð milljóna á silfurfati

Magnús Halldórsson skrifar
Lykilstjórnendum Eimskipafélagsins mun bjóðast að eignast hluti í félaginu á umtalsvert lægra gengi en reiknað er með að verði fyrir hendi þegar félagið verður skráð á markað í september. Hlutur þeirra gæti orðið milljarða virði.

Eimskipafélagið er í skráningarferli og er talið að það fari á markað í september. Lykilstjórnendur hafa nú þegar tryggt sér kauprétt á hlutabréfum í félaginu. Óljóst er hvaða stjórnendur það eru.

Eins og fréttastofa greindi frá fyrr í vikunni er þegar búið að teikna upp kaupréttarkerfi hjá Eimskipafélaginu, sem gerir ráð fyrir að lykilstjórnendur geti eignast um 700 þúsund hluti í félaginu, sem jafngildir um þremur og hálfu prósenti af heildarhlutafé.

Stjórnendur félagsins hafa ekki viljað tjá sig um þessi mál við fréttastofu né heldur stjórnarmenn, en Íslandsbanki og Straumur fjárfestingarbanki vinna nú að undirbúningi skráningar félagsins.

Samkvæmt heimildum fréttastofu liggur þegar fyrir að forstjóri félagsins, Gylfi Sigfússon, er í hópi þeirra sem fær að eignast hlut, en þeir munu fá að eignast bréfin á umtalsvert lægra gengi en félagið verður skráð á markað á samkvæmt heimildum fréttastofu.

Miðað við heildarvirði þeirra hluta sem lykilstjórnendurnir eignast með kaupréttarkerfinu, gæti virði þess hlutar verið allt að 1,4 milljarðar króna við skráningu, sé horft til heildarvirðis félagsins. En í kynningum fyrir hluthöfum félagsins að undanförnu hefur það verið sagt vera á bilinu 25 til 39 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×