Viðskipti innlent

Bandarískir stórbankar gera ráð fyrir að evrusvæðið brotni upp

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Mun evrusvæðið brotna upp? Bandarískir bankamenn gera ráð fyrir því og segja það bara tímaspursmál.
Mun evrusvæðið brotna upp? Bandarískir bankamenn gera ráð fyrir því og segja það bara tímaspursmál.
Margir bankar á Wall Street eru nú að búa sig undir að evrusvæðið brotni upp með því að þau ríki sem eru í hvað mestum vandræðum, eins og Spánn og Grikkland, yfirgefi myntsamstarfið.

Þetta hefur falist í því að bandarískir bankar eru kerfisbundið að lágmarka áhættu sína á evrópsk fjármálafyrirtæki og Evrópuríki með kaupum á svokölluðum skuldatryggingum og með sölu á kröfum sínum á evrópsk fjármálafyrirtæki, en frá þessu er greint í Financial Times.

Gögna sýna að JPMorgan Chase, Bank of America, Citigroup, Morgan Stanley and Goldman Sachs hafa kerfisbundið minnkað útlánaáhættu sína gagnvart evrópskum fyrirtækjum og ríkjum. Flestir þessara banka hafa um langt skeið verið með áhættuteymi sem einbeita sér sérstaklega að vandanum á evrusvæðinu.

Þá hafa bandarísku bankarnir ráðist í mikla vinnu bak við tjöldin til að tryggja að við breytingu á mynt hjá ríkjum sem yfirgefa evrusvæðið þurfi þeir ekki að sætta sig við greiðslur í drökmu eða pesetum þar sem gengið hefur verið fellt.

Þetta þýðir að bankarnir hafa vaxandi áhyggjur áhyggjur af því að evrusvæðið brotni upp og þeir vilja lágmarka tjón sitt.

Evrópski fjárfestingarbankinn réðst í svipaðar aðgerðir fyrr í sumar þegar hann lét breyta lánaskilmálum sínum við grísk fyrirtæki, en sú aðgerð var túlkuð þannig að bankinn teldi ekki lengur útilokað að Grikkland yfirgæfi Evrópska myntbandalagið.

Citigroup telur það mun líklegra en áður að Grikkland segi skilið við evrusamstarfið og taki upp drökmu á ný, en greiningardeild bankans spáði því í síðustu viku að 90 prósent líkur væru á því að Grikkir segðu sig frá evrunni á næstu 12-18 mánuðum og að 75 prósent líkur væru á því að þetta myndi gerast innan hálfs árs. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×