Innlent

Lögmaður hermdi á niðurlægjandi hátt eftir fórnarlambi

Jón Egilsson.
Jón Egilsson. Mynd / / Stefán Karlsson
Hæstaréttarlögmanninum Jóni Egilssyni var í dag gert að greiða 100 þúsund krónur í réttarfarssekt þegar hann flutti mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þetta er í annað skiptið sem hann er sektaður fyrir slíkt brot.

Málið sem um ræðir er skaðabótamál karlmanns af erlendum uppruna gegn tveimur mönnum sem réðust á hann þegar hann var að störfum í verslun 10-11 í Kópavogi árið 2006.

Mennirnir voru síðar ákærðir og dæmdir fyrir árásina í Héraðsdómi Reykjaness.

Fórnarlambið hélt því fram að afleiðingar líkamsárásarinnar, líkamlegar og andlegar, hefðu verið mun alvarlegri en þau gögn sem byggt hafi verið á í sakamálinu, einkum vegna þess höfuðhöggs sem hann hafi orðið fyrir af völdum annars mannsins.

Þeim manni var gert að greiða fórnarlambinu rúmlega þrjár milljónir króna en skjólstæðingur Jóns var aftur á móti sýknaður.

Svo segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur að í málflutningsræðu sinni hermdi Jón Egilsson á niðurlægjandi hátt eftir fórnarlambinu, sem var viðstaddur þinghaldið ásamt aðstandendum sínum. Þannig á Jón að hafa leikið fórnarlambið kjökrandi að hringja í lögmann sinn vegna málsins.

Svo segir orðrétt í úrskurði dómarans: „Hegðaði hann [Jón Egilsson] sér þannig á ósæmilegan hátt gagnvart stefnanda og misbauð virðingu dómsins. Verður lögmanninum gerð sekt vegna þessarar háttsemi eftir e. og f. liðum 1. mgr. 135. gr. laga um meðferð einkamála sem ákveðst 100.000 kr. og renni í ríkissjóð."

Árið 2005 staðfesti Hæstiréttur Íslands niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem honum var einnig gert að greiða réttarfarssekt. Jón áfrýjaði úrskurði héraðsdóms sem sektaði hann fyrir óvirðingu. Þá sagði í niðurstöðu Hæstaréttar:

„Af hljóðupptöku frá aðalmeðferð málsins í héraði er ljóst að verjandinn hefur komið ósæmilega fram í dómsal, eins og nánar er skýrt í forsendum héraðsdóms, og sýnt réttinum fádæma óvirðingu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×