Skoðun

Landspítali – öryggisnet í eigu og þágu þjóðar

Ólafur Baldursson og Sigríður Gunnarsdóttir skrifar
Sífellt aukin krafa er á gæða- og öryggismál á sjúkrahúsum. Reynslan sýnir að sjúkrahús á Vesturlöndum eru ekki eins örugg og halda mætti og á undanförnum árum hefur orðið mikil vitundarvakning um þessi mál og öflug alþjóðasamtök sett þau í forgang. Neytendur gera vaxandi kröfur til þess að þjónustan sé bæði skilvirk og örugg. Segja má að spítalar séu í eðli sínu óöruggir, vegna þeirra flóknu verkefna sem þeir sinna og þess hversu viðkvæmir skjólstæðingar þeirra eru. Þess vegna er brýnt að gera sérstakar ráðstafanir á sjúkrahúsum til að auka öryggi og gæði þjónustunnar og vinna stöðugt að umbótum á starfseminni.

Í starfsáætlun Landspítala fyrir árið 2012 til 2013 sem nýlega kom út eru öryggi og gæði einmitt sett í forgang. Lögð hefur verið sérstök áhersla á að efla öryggis- og gæðamenningu og auka enn frekar fagmennsku í vinnubrögðum og skilvirkum verkferlum. Þessi áhersla, og frábær frammistaða starfsfólks Landspítala, hefur gert mögulegt að standa vörð um öryggi sjúklinga þrátt fyrir mikinn niðurskurð. Síðastliðin þrjú ár hafa einkennst af því að draga hefur þurft úr kostnaði á Landspítala enda hafa fjárframlög ríkisins til spítalans lækkað um 23% á þeim tíma.

Ef tryggja á áfram gæði og öryggi þjónustunnar þarf að verða breyting á. Ef til frekari niðurskurðar kemur þarf að leggja af einhverja þjónustu en til að halda áfram frekari uppbyggingu er óhjákvæmilegt að fjárveitingar verði auknar og aðbúnaður bættur. Mikilvægt skref í þá átt er endurnýjun á húsnæði Landspítala og nauðsynleg endurnýjun á tækjabúnaði. Einnig þarf að tryggja nýliðun og festu í starfi lækna og hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta. Slík sókn kostar óhjákvæmilega fjármuni enda eru húsnæði, tækjakostur og annar aðbúnaður forsendur þess að hægt sé að tryggja mönnun, öryggi og gæði. Sem faglegir ábyrgðarmenn munum við leitast við að efla enn frekar öryggis- og gæðastarf á spítalanum en til þess þurfum við hjálp íslensks samfélags og fjárveitingavalds til að tryggja nauðsynlegar fjárveitingar, endurnýjun á húsnæði og tækjabúnaði. Landspítali er öryggisnet í eigu og þágu þjóðar og það er sameiginlegt verkefni okkar allra að tryggja forsendur fyrir farsælu starfi til framtíðar.




Skoðun

Sjá meira


×