Innlent

Ódýrara að rista brauð lóðrétt en lárétt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Magnús Orri Schram segir vörugjöldin mjög órökrétt.
Magnús Orri Schram segir vörugjöldin mjög órökrétt.
Það er ódýrara að rista brauð lóðrétt en lárétt. Ástæðan er sú að brauðrist ber ekki vörugjöld en samlokugrill bera vörugjöld. Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á þessu í samtali við Reykjavík síðdegis í dag. Hann segir að vörugjöldin séu fáránleg og menn hafi gert sér grein fyrir því um allnokkurt skeið. Hins vegar sé erfitt að afnema þau vegna slæmrar stöðu ríkissjóðs. „Það er vörugjald á vöfflujárnum en ekki pönnukökupönnum. Kaffivélar bera ekki vörugjald en hraðsuðukönnur bera 25% vörugjald. Það virðist því vera dýrara að drekka te en kaffi," segir Magnús Orri.

Magnús Orri segir að um fimm milljarðar hafi fengist í ríkissjóð árið 2010 með vörugjöldum. Ef leggja ætti vörugjöldin af þyrfti að ná þeim aftur með einhverjum öðrum hætti. Fyrrgreind atriði sýni hins vegar hvað gjaldið sé órökrétt. „Stjórnmálamenn hafa um langa tíð verið að tala um að þá langi til að breyta þessu en við höfum frá því að ég kom inn í póltík verið gríðarlega upptekin af því að láta enda ná saman og ef við tökum fimm milljarða af tekjumegin þá þurfum við að mæta þeim einhvern veginn í útgjöldunum," segir Magnús Orri.

Magnús Orri segir því að menn hafi verið uppteknari af mörgu öðru upp á síðkastið en vörugjöldunum. Engu að síður sé nú komin í gang smá endurskoðunarvinna við að gera þessi gjöld rökréttari en þau eru nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×