Viðskipti innlent

Brynjólfur ráðinn til Framtakssjóðs

Brynjólfur Bjarnason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands. Í tilkynningu frá sjóðnum segir að Brynjólfur, sem meðal annars hefur verið forstjóri Símans og Skipta, hafi viðamikla reynslu úr íslensku atvinnulífi. Hann var hjá Símanum og Skiptum frá 2002 til 2010, forstjóri Granda hf. 1984-2002 og framkvæmdastjóri Almenna Bókafélagsins frá 1976-1983.

Þá hefur Brynjólfur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og samtaka. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og lauk MBA prófi frá University of Minnesota árið 1973.

Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður FSÍ segir mikinn feng að því að fá Brynjólf til að leiða þau verkefni sem framundan séu hjá Framtakssjóðnum. „Hann hefur mikla reynslu af fyrirtækjarekstri og þekkingu á mörgum sviðum atvinnulífsins. Framtakssjóðurinn á nú eignarhluti í sjö fyrirtækjum og verkefnið framundan er að vinna með stjórnendum og starfsfólki að því að þróa starfsemi þeirra og rekstur ásamt því að skoða áhugaverð fjárfestingartækifæri sem falla að stefnu sjóðsins."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×