Innlent

Tvo þarf til að rjúfa þing

BBI skrifar
Hvorki forseti né forsætisráðherra fara einir með þingrofsrétt. Þetta segir Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði á alþingi í dag að sín skoðun væri sú að þingrofsrétturinn væri hjá hæstvirtum forsætisráðherra.

Einnig var rætt um þingrofsréttinn í kappræðum forsetaefnanna sem fram fóru í Hörpu á sunnudaginn. Í meðfylgjandi myndskeiði heldur Ólafur Ragnar Grímsson því fram að forsætisráðherra hefði tillögurétt til þingrofs en sjálfur þingrofsrétturinn væri með mikilvægustu hlutverkum forsetans.

„Fólki hættir til að gleyma 19. gr. stjórnarskrárinnar í þessari umræðu," segir Ragnhildur. Þar kemur fram að stjórnarerindi (t.d. tillaga um þingrof) öðlist aðeins gildi með undirskrift forseta ef ráðherra ritar undir með honum. „Lögfræðilega er stjórnarskráin alveg skýr hvað þetta varðar," segir Ragnhildur.

Þetta þýðir að þó forseti Íslands vilji rjúfa þing getur hann það ekki nema ráðherra riti undir það með honum. Og ráðherra getur ákveðið þingrof en það öðlast ekki gildi nema forseti riti undir það.

„Lögfræðilega er þetta engin spurning þó menn geti rifist um þetta pólitískt," segir Ragnhildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×