Á sunnudaginn var mætti söngvarinn Ármann Ingvi Ármannsson í útvarpsþáttinn Vasadiskó.
Í liðnum "selebb shuffle" hefur þátturinn hingað til tekið á móti gestum og vasadiskóum þeirra sem hafa svo verið látin renna áfram á "shuffle" á meðan þáttarstjórnandi og gestur spjalla.
En auk þess að mæta með mp3-spilarann sinn mætti Ármann vopnaður kassagítar á bakinu. Þáttastjórnandi kunni ekki við annað en að hleypa honum í loftið og flutti Ármann lagið "Folding Nicely" með stakri prýði, líkt og heyra má hér fyrir ofan eða á útvarpssíðu Vísis.
Lagið verður að finna á fyrstu sólóplötu kappans sem er í smíðum. En það mun vera ein af þremur plötum sem Ármann vinnur að um þessar mundir. Hljómsveit hans Who Knew? er við lagasmíðar á annarri breiðskífu sinni en einnig hefur hann lokið við upptökur á rafrænu hliðarverkefni sveitarinnar er heitir Launch.
Vasadiskó er á dagskrá X977 á sunnudögum á milli 15 - 17. Fylgist með á Fésbókinni.
Upptökur af þættinum og eldri þáttum Vasadiskó má síðan finna á slóðinni visir.is/vasadisko.
Ármann úr Who Knew flytur Folding Nicely í Vasadiskó
