Körfubolti

Oklahoma í kjörstöðu eftir sigur í San Antonio

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kevin Durant fagnar í San Antonio í nótt.
Kevin Durant fagnar í San Antonio í nótt. Nordicphotos/Getty
Oklahoma City Thunder vann 108-103 sigur á San Antonio Spurs í fimmta leik liðanna í úrslitum vesturdeildar NBA-körfuboltans í nótt. Oklahoma leiðir í einvíginu 3-2 en þetta var þriðji sigur liðsins í röð.

Kevin Durant skoraði 27 stig og Russell Westbrook 23 stig fyrir Oklahoma sem vantar aðeins einn sigur til að tryggja sér sæti í úrslitum NBA-deildarinnar. Þar mætir liðið annaðhvort Miami Heat eða Boston Celtics sem eigast við í úrslitum austurdeildar.

Manu Ginobili kom inn í byrjunarlið Spurs og fór á kostum í leiknum. 34 stig hans dugðu þó ekki til. Hann hefði getað jafnað metin með þriggja stiga skoti fimm sekúndum fyrir leikslok. Hann var hins vegar ekki í jafnvægi og skotið geigaði.

Tuttugu leikja sigurganga San Antonio í NBA-körfuboltanum er gleymd og grafin. Með tuttugasta sigri sínum í röð komst liðið í 2-0 í einvíginu gegn Oklahoma og fæstir sem áttu von á endurkomu Kevin Durant og félaga. Annað hefur komið á daginn. Liðið vann báða heimaleiki sína sem var langt í frá útilokað en öðru máli gegnir um sigur liðsins í Texas í nótt.

Sjötti leikur liðanna fer fram í Oklahoma aðfaranótt fimmtudags og er í beinni útsendingu á Stöð 2 líkt og allir leikirnir sem eftir eru í úrslitakeppni NBA.

Í nótt mætast Boston og Miami í fimmta leik liðanna í úrslitum austurdeildar. Staðan í einvígi liðanna er 2-2. Leikurinn hefst klukkan 01:00 og er í beinni á Stöð 2 Sport.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×