Tónlist

Oftast rifinn úr að ofan

Freyr Bjarnason skrifar
Gísli Pálmi segist eingöngu vera á samningi hjá sjálfum sér, og kannski lögreglunni líka.
Gísli Pálmi segist eingöngu vera á samningi hjá sjálfum sér, og kannski lögreglunni líka. Mynd/Vilhelm
Gísli Pálmi er einn heitasti ungi rappari landsins, ef ekki sá allraheitasti. Hann spilaði á Þýska barnum á Airwaves-hátíðinni þar sem hann reif upp stemninguna að mati gagnrýnanda Fréttablaðsins.

„Það var allt vitlaust," sagði í dóminum. „Það sem gerir Gísla Pálma svona vinsælan er sennilega fyrst og fremst hvað hann er orkumikill og skemmtilegur. Það er mikill húmor í sviðstöktunum hjá honum og textunum, sem fjalla oft um hann sjálfan."

Aðspurður segist Gísli Pálmi vera mjög ánægður með tónleikana og þá stemningu sem myndaðist. „Þetta var klikkað, geðveikt. Sérstaklega miðað við hvað það voru margir útlendingar þarna og fólk sem hafði aldrei heyrt þetta áður. Það myndaðist þvílík stemning þarna."

Meðal áheyrenda var Björk Guðmundsdóttir og fleiri kunnir einstaklingar. Það stressaði hann ekkert upp. „Ég frétti að það hefði verið mikið af fólki þarna og ég sá nokkra þegar ég labbaði inn. Þetta er bara heiður og gaman að því."

Margir útsendarar frá erlendum plötufyrirtækjum mæta á Airwaves-hátíðina og segist Gísli hafa rætt við einn eða tvo en óvíst er hvort eitthvað komi út úr því.

En hvernig er það, ertu heitasti rapparinn á landinu?

„Ég veit það ekki, það er erfitt að segja frá því sjálfur en ég er með"etta."

Frá tónleikum Gísla á Airwaves. Mynd/Silja Magg
Töluvert er um að aðrir rapparar og tónlistarmenn hringi í Gísla Pálma og óski eftir samstarfi. „Það kemur mjög mikið fyrir að fólk úr öllum stéttum og stefnum reyni að koma í samstarf. Ég er opinn fyrir öllu en það væri meira komið af svoleiðis ef ég væri mjög „líbó" á það. Ég er svolítið „pikkí" og mér finnst fínt að gera þetta sjálfur."

Gísli Pálmi er sonur athafnamannsins Sigurðar Gísla Pálmasonar, en hefur að eigin sögn ávallt unnið fyrir sínu og ekki notið fjárhagslega góðs af fjölskyldutengslum sínum. Hann hefur verið duglegur við að búa til myndbönd við lögin sín og setja á Youtube. Þar öðlaðist hann fyrst vinsældir með laginu Set mig í gang og því hlýtur myndbandagerðin að skipta hann töluverðu máli.

„Ég leikstýri öllu en frændi minn og vinur, Árni Geir, sér um alla tæknina," segir hann. „Það er alltaf gaman að skoða tónlist ef það er myndband undir. Lagið verður ekkert endilega betra en það er einhver fílingur við þetta."

Áttu einhverja áhrifavalda í tónlistinni?

„Það eru engin sérstök nöfn en ég hlusta mjög mikið á alls konar tónlist. Að mestu leyti hip hop, dubstep og smá elektróník."

Gísli Pálmi er duglegur við að fara úr að ofan á tónleikum, sem er kannski ekki skrítið enda vel „köttaður" og með nóg af húðflúrum á líkamanum. „Ég er oftast rifinn úr að ofan eða þá grátbeðinn um það. Þetta er bara einhver fílingur. Þau vilja sjá kallinn. Ætli þetta komi ekki mikið frá Set mig í gang [myndbandinu sem sjá má hér fyrir ofan]."

Aðspurður segir hann fyrstu plötuna ekki vera á leiðinni í bráð. „Það er einhver tími í það. Það verður alla vega ekki fyrir þessi jól," segir rapparinn, sem hefur aldrei skrifað undir plötusamning. „Ég er bara á samningi hjá sjálfum mér og hjá lögreglunni líka."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×