Innlent

Neyðarástand í Kattholti - 300 óskilakisur komu í sumar

Anna Kristine Magnúsdóttir, formaður Kattavinafélags Íslands.
Anna Kristine Magnúsdóttir, formaður Kattavinafélags Íslands.
Stjórn Kattavinafélags Íslands vill beina þeim tilmælum til eigenda katta að láta gelda högna sína og gera ófrjósemisaðgerðir á læðum. Neyðarástand ríkir í Kattholti því tæplega 300 óskilakisur komu þangað í sumar.

Aðeins hluti þeirra komst aftur heim til sín, aðrar voru teknar á góð heimili en alltof margar þurfti að svæfa. Í tilkynningu frá Kattavinafélaginu segir að eina leiðin til að stemma stigu við að saklaus dýr eigi engin hús að venda sé sú að taka kettina úr sambandi. Það sé einföld aðgerð.

Tilkynninguna má sjá í heild sinni fyrir neðan.

Að gefnu tilefni vill stjórn Kattavinafélags Íslands enn og aftur beina þeim tilmælum til eigenda katta að láta gelda högna sína og gera ófrjósemisaðgerðir á læðum. Meira áríðandi og minna mál er að gelda högnana.

Nú er svo komið að algjört neyðarástand ríkir í Kattholti. Þangað komu tæplega ÞRJÚ HUNDRUÐ óskilakisur á tímabilinu 1. maí til 7. ágúst 2012. Aðeins hluti þeirra komst aftur heim til sín, aðrar voru teknar á góð heimili en alltof margar þurfti að svæfa.

Stjórn Kattavinafélagsins er orðin langþreytt á hversu litla ábyrgð margir kattaeigendur taka á dýrum sínum. Eins og sakir standa nú, er Kattholt yfirfullt og stöðugt berast beiðnir um að við tökum að okkur fleiri ketti. Þetta er ekkert líf fyrir dýrin og við höfum leitað allra leiða til að koma í veg fyrir offjölgun katta, án nokkurs árangurs. Eina vonin til að ástandið batni er að kattaeigendur fari að axla þá ábyrgð sem fylgir því að eiga kött. Eina leiðin til að stemma stigu við að saklaus dýr eigi í engin hús að venda er sú að taka kettina úr sambandi. Það er einföld aðgerð.

Fyrir hönd Kattavinafélags Íslands og Kattholts,

Anna Kristine Magnúsdóttir

formaður Kattavinafélags Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×