Innlent

Magnúsi Orra bannað að auglýsa bókina sína

Magnús Orri Schram gaf út bókina Við stöndum á tímamótum fyrir skömmu en fær ekki að auglýsa hana.
Magnús Orri Schram gaf út bókina Við stöndum á tímamótum fyrir skömmu en fær ekki að auglýsa hana.
„Þetta snýst um það að frambjóðendur mega ekki kaupa sér auglýsingar," sagði Valgerður Guðjónsdóttir, formaður kjörstjórnar Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, en þeim tilmælum var komið til Magnúsar Orra Schram, þingmanns flokksins, að hann mætti ekki auglýsa bók sína og yrði það gert ógildir hann framboð sitt í prófkjöri Samfylkingarinnar í kjördæminu. Magnús Orri gefur kost á sér í 2. til 3. sæti í prófkjörinu.

Magnús Orri gaf á dögunum út bókina „Við stöndum á tímamótum" en það er Veröld sem gefur út. Forlagið vakti athygli á bókinni með auglýsingu líkt og tíðkast almennt, en sú auglýsing virðist hafa farið fyrir brjóstið á kjörstjórn Suðvesturkjördæmis.

Umdeild bók. Magnús Orri má ekki auglýsa bókina.
Aðspurð segir Valgerður að það hafi verið stjórnin sjálf sem gerði athugasemdir við bókaauglýsinguna og kom þeim tilmælum áleiðis til Magnúsar Orra með óformlegum hætti að ef hann auglýsti aftur, þá gæti það teflt framboði hans í tvísýnu.

Valgerður segir að fyrsta auglýsingin hafi verið búin að birtast þegar aðfinnslan var gerð. „Þá bentum við honum á að þetta væri ekki innan ramma reglnanna," sagði Valgerður.

Hún segir engar formlegar kvartanir hafi borist stjórninni og að framkvæmd prófkjörsins hafi gengið bærilega enn sem komið er.

Prófkjörið í kjördæminu fer fram næstu helgi. Þar er hart barist en svo virðist sem helstu átökin séu á milli Árna Páls Árnasonar, sem hefur einnig gefið kost á sér sem formaður flokksins, og svo Katrínar Júlíusdóttur fjármálaráðherra, sem sækist nú eftir 1. sætinu í stað 2. sætis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×