Innlent

Telur rammaáætlun hafa mistekist

Kristján L. möller
Kristján L. möller
Kristján L. Möller, formaður atvinnuveganefndar og þingmaður Samfylkingarinnar, telur að ferli rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða, hafi mistekist. Iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra, sem unnu þingsályktunartillögu, hafi ekki haft það að leiðarljósi að ná sátt um málið. Það sé orðið pólitískt en ekki faglegt.

Önnur umræða um rammaáætlun hófst í gær, en þó ekki fyrr en þingmenn höfðu tekist á um það um hríð hvort leyfa ætti umræðu fram á kvöld. Sú varð niðurstaðan.

Kristján sagði meðal annars að rök vantaði fyrir því að Hvammsvirkjun og Holtavirkjun í Þjórsá væru færðar úr nýtingar- í biðflokk og hvers vegna í staðinn hefðu virkjanir á Reykjanesskaga verið settar í nýtingarflokk.

„Við þessa vinnu ráðherranna tveggja, þar sem ákveðið var að horfa frá tillögu verkefnastjórnarinnar og búa til nýja tillögu, þar sé gengið of langt í nýtingarflokki á Reykjanesskaga.“

Kristján kvartaði yfir því að ekki væri að finna fagleg rök fyrir þessari ákvörðun og hún væri því pólitísk.

„Það er þess vegna, virðulegi forseti, sem ég tel að okkur sé að mistakast. Það hefur komið fram hjá nokkrum gestum, í umræðum um þetta mál, sem hafa sagt að því miður sé með þessum aðgerðum verið að gera þetta að rammaáætlun virðulegrar ríkisstjórnar. Og ég óttast það, virðulegi forseti, að væntanlegar ríkisstjórnir muni vitna í þetta inngrip þegar þær fara að breyta rammaáætlun.“

Umræða um málið stóð enn þegar blaðið fór í prentun.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×