Sport

Federer sýndi mátt sinn í Dúbæ

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roger Federer og Andy Murray eftir úrslitaleikinn í dag.
Roger Federer og Andy Murray eftir úrslitaleikinn í dag. Nordic Photos / AFP
Roger Federer sýndi að hann ætlar sér að komast aftur í efsta sæti heimslistans með því að bera sigur úr býtum á Dúbæ-meistaramótinu í dag.

Federer hafði betur gegn Skotanum Andy Murray í úrslitum, 7-5 og 6-4, en Murray hafði lagt Novak Djokovic í undanúrslitum. Djokovic er efsti maður heimslistans og sigurvegari þriggja af síðustu fjögurra stórmóta í íþróttinni.

Federer hefur fallið í skugga hans og Rafael Nadal síðustu árin en Federer er harðákveðinn í að komast aftur á toppinn. „Það er best að vinna. Það leysir allt," sagði Federer eftir sigurinn.

Federer hefur nú unnið tíu viðureignir í röð en hann vann einnig sterkt mót í Rotterdam fyrir skömmu. Hann hefur unnið alls sextán stórmót á ferlinum og þetta var hans 72. mótsigur á ferlinum - sannarlega ótrúlegur árangur. Þetta var í fimmta sinn á ferlinum sem hann sigrar á mótinu í Dúbæ.

Í kvennaflokki varð hin pólska Agnieszka Radwanska hlutskörpust eftir sigur á Juliu Görges frá Þýskalandi í úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×