Innlent

Byrjað á hrunráðherrum

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og sakborningur, verður fyrstur í vitnastúku í landsdómsmálinu á mánudag. Samkvæmt áætlun á Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra í aðdraganda hrunsins, einnig að bera vitni á mánudag. Það fer þó eftir því hvort hún nái til landsins í tæka tíð, en Ingibjörg Sólrún starfar sem yfirmaður UN Women í Kabúl, höfuðborg Afganistans.

Heimildir Fréttablaðsins herma að stefnt sé á að alls sex vitni verði kölluð fyrir á þriðjudag. Fyrst eiga fjórir ráðherrar úr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem Geir veitti forstöðu fram í febrúar 2009, að setjast í vitnastúkuna. Þeir eru Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, sem var efnahags- og viðskiptaráðherra, Össur Skarphéðinsson sitjandi utanríkisráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Óvissa er þó um að Árni verði kominn til landsins, en hann starfar sem aðstoðarframkvæmdastjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Róm á Ítalíu.

Í kjölfarið mun Arnór Sighvatsson, fyrrverandi aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands og núverandi aðstoðarseðlabankastjóri, bera vitni. Að því loknu mun Davíð Oddsson, sem var formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands frá september 2005 og fram í febrúar 2009, setjast í vitnastúkuna. Davíð, sem er einnig fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra til þrettán ára, er í dag annar ritstjóra Morgunblaðsins. Alls er búist við því að á sjötta tug vitna verði kölluð fyrir í málsmeðferðinni.

Alþingi samþykkti 28. september 2010 að ákæra Geir fyrir Landsdómi. Við sama tækifæri hafnaði þingið því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu, Björgvin og Árna. Alþingi höfðaði síðan málið með ákæru 10. maí 2011.

Landsdómur vísaði tveimur ákæruliðum frá í október síðastliðnum. Eftir standa fjórir ákæruliðir. Bjarni Benediktsson lagði fram tillögu um að afturkalla ákæruna á hendur Geir í desember síðastliðnum. Alþingi samþykkti á fimmtudag með 33 atkvæðum gegn 27 að vísa tillögunni frá. Því munu vitnaleiðslur hefjast á mánudag, 5. mars. - þsj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×