Körfubolti

LeBron og Kobe bestir í NBA-deildinni í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Kobe Bryant.
LeBron James og Kobe Bryant. Mynd/Nordic Photos/Getty
LeBron James hjá Miami Heat og Kobe Bryant hjá Los Angeles Lakers hafa verið valdir bestu leikmenn NBA-deildarinnar í janúar, James í Austurdeildinni og Bryant í Vesturdeildinni. Fyrstu leikir tímabilsins í desember teljast einnig með.

LeBron James og félagar í Miami Heat unnu 16 af 21 leik sínum í desember og janúar og James var með 29,2 stig, 8.3 fráköst og 7,1 stoðsendingu að meðaltali í leik. Hann var einnig með 55,1 prósent skotnýtingu og 1,8 stolinn bolta að meðaltali í leik.

James var með í tuttugu þessarra leikja og var stigahæstur í sextán þeirra. Hann skoraði sextán sinnum yfir 25 stig og ellefu sinnum braut hann 30 stiga múrinn.

Kobe Bryant og félagar í Los Angeles Lakers unnu bara 13 af 22 leikjum sínum í desember og janúar en Bryant var með 30,0 stig, 6,1 fráköst og 5,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Bryant varð 1. janúar yngsti leikmaðurinn í sögunni til að skora 28 þúsund stig í deildinni og hann skoraði 48 stig í sigri á Phoenix Suns 10.janúar. Kobe náði því síðan að skora yfir 40 stig í fjórum leikjum í röð og það á aðeins fimm dögum.

Aðrir sem komu til greina sem leikmenn mánaðarins voru: Joe Johnson og Josh Smith hjá Atlanta, Derrick Rose hjá Chicago, Kyrie Irving nýliði Cleveland, Shawn Marion hjá Dallas, Kyle Lowry hjá Houston, Roy Hibbert og Danny Granger hjá Indiana, Marc Gasol hjá Memphis, Deron Williams hjá New Jersey, Kevin Durant og Russell Westbrook hjá Oklahoma City og LaMarcus Aldridge hjá Portland.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×