Körfubolti

Pavel-lausir Sundsvall-menn töpuðu á heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Valli
Sundsvall Dragons tapaði sínum þriðja leik í röð í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld þegar liðið lá með sex stigum á heimavelli á móti Södertälje Kings, 78-84. Sundsvall hefði farið á toppinn með sigri en er nú í 5. sæti tveimur stigum á eftir toppliðum Borås og Södertälje.

Sundsvall Dragons átti góðan endasprett í leiknum undir forystu Jakobs Sigurðarsonar en það dugði ekki til. Jakob skoraði þrettán af tuttugu stigum sínum á síðustu ellefu mínútum leiksins.

Södertälje var 28-16 yfir eftir fyrsta leikhluta og þrettán stigum yfir í hálfleik, 43-30. Sundsvall lagaði stöðuna með því að vinna fjórða leikhlutann 27-20.

Sundsvall-liðið lék án Pavels Ermolinskij sem er meiddur. Jakob var með 20 stig og 4 stoðsendingar en Hlynur Bæringsson skoraði 14 stig og tók 8 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×