Íslensk stjórnvöld og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vinna nú að stofnun vinnuhóps sem mun hafa það hlutverk að finna lausnir á þeim vanda sem Íslendingar standa frammi fyrir í efnahags- og peningamálum.
Þetta kemur fram í skýrslu Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, um utanríkis- og alþjóðamál sem var lögð fram á Alþingi í gær.
Í skýrslunni fer ráðherra meðal annars farið yfir stöðuna í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins.
Þar segir að nauðsynlegt sé að finna leið fyrir Ísland út úr höftum og inn í nýjan gjaldmiðil. Með formlegri aðild að Evrópusambandinu geti íslendingar komið krónunni í skjöl fram að upptöku evrunnar aðeins fáum mánuðum eftir aðild. Ekki þurfi að bíða í langan tíma eins og áður hafi verið fullyrt.
Í skýrslunni er ennfremur vikið að áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis þar sem fram kemur að gjaldmiðilsmál skuli vera forgangsverkefni í viðræðuferlinu við ESB.
Með þetta að leiðarljósi sé unnið að stofnun vinnuhóps sérfræðinga íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórar ESB sem greina á þau vandamál sem Íslandi stendur frammi fyrir í efnahags- og peningamálum og þau tækifæri sem viðræðuferlið kann að bjóða upp á.
Skýrsla utanríkisráðherra verður rædd á Alþingi á morgun.
Stofna vinnuhóp um lausnir á myntvanda Íslendinga
Höskuldur Kári Schram skrifar