Innlent

Kallaði lögregluþjón nasista og rottu

Reiði mannsins í garð lögregluþjónanna braust út á netinu.
Reiði mannsins í garð lögregluþjónanna braust út á netinu. Fréttablaðið/valli
Ríkissaksóknari hefur ákært hálffertugan mann fyrir að veitast með ofsafengnu orðbragði að tveimur nafngreindum lögregluþjónum á Facebook.

Ummælin féllu á vefnum 18. og 19. september í fyrra. Ekki kemur fram í ákærunni hvað varð manninum tilefni til skrifanna.

Ákærði kallaði annan lögreglumannanna fasista, viðbjóðslegt gerpi, barnaníðing, morðingja, framhjáhaldara, geðsjúkling, sterahaus, mikilmennskubrjálæðing, nasistaforingja og böðul. Þá sakaði hann lögregluþjóninn um spillingu í tengslum við hestakerru og ofbeldi gegn ungum dreng.

Hinn lögreglumanninn kallaði hann geðsjúkling og rottu og kvaðst vonast til þess að hann mundi rotna í helvíti enda væri hann sóun á súrefni, auk þess sem hann sakaði hann um ýmislegt misjafnt.

Allt þykir þetta varða við hegningarlagaákvæði um ærumeiðandi aðdróttanir. Að lokum er hann ákærður fyrir að kalla þá rottur og nasistagengi og hóta þeim báðum því að láti þeir ekki „dagfarsprúða“ syni hans í friði muni hann enda í sextán ára fríi á „heilsuhælinu“ Litla-Hrauni.

Hann bætir við að slíka þjónustu sé raunar ekkert mál að kaupa fyrir 200 til 1.200 þúsund krónur af erlendum mönnum. Þetta er álitin vera hótun um líflát.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×