Innlent

Hundum fjölgað um helming á sex árum

Tölurnar um fjölda hunda í Kopavogi, Hafnarfirði, Garðarbæ og Álftanesi eru fengnar frá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogs og ná aðeins til áramóta. Tölurnar úr Reykjavík, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi eru hins vegar nýjar.
Tölurnar um fjölda hunda í Kopavogi, Hafnarfirði, Garðarbæ og Álftanesi eru fengnar frá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogs og ná aðeins til áramóta. Tölurnar úr Reykjavík, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi eru hins vegar nýjar.
Skráðum hundum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 54 prósent síðan í ársbyrjun 2006. Þeir voru 3.551 í byrjun ársins 2006 en eru nú 5.475, samkvæmt tölum sem ýmist eru glænýjar eða frá síðustu áramótum.

Mjög mikill munur er á því hversu mikið hundum hefur fjölgað á þessu tímabili eftir sveitarfélögum. Langmest hefur fjölgunin verið í Hafnarfirði, um 86 prósent, en langminnst á Álftanesi, um fjórtán prósent. Næstmest hefur hundum fjölgað í Kópavogi, um 66 prósent, því næst í Mosfellsbæ og Reykjavík, um 48 og 46 prósent, og þar á eftir koma Seltjarnarnes og Garðabær, með fjölgun sem nemur 37 og 36 prósentum.

Það er þó ekki víst hversu mikla sögu þessar tölur segja um heildarfjölda hunda, enda er þó nokkuð um óskráða hunda í borginni. Hversu mikið er þó erfitt að segja, að því er fram hefur komið í samtölum blaðamanns við starfsfólk sveitarfélaganna og heilbrigðiseftirlits.

Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, segir að talið sé að allt upp undir 25 prósent allra hunda í Reykjavík séu óskráð. „Þótt það sé ómögulegt að vita það með einhverri vissu," bætir hún við.

Ingimundur Helgason, hundaeftirlitsmaður á Seltjarnarnesi, kveðst eiga erfitt með að fallast á að 25 prósenta talan geti átt við um Seltjarnarnes, og Páll Stefánsson hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis segir það almenna tilfinningu manna þar á bæ að ekki sé svo stór hluti hunda óskráður.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×